Samstarf við Hveragerði frá áramótum 2013-2014

  1. Samningur við Tónsmiðju Suðurlands.
    Lagður fram samningur við Tónsmiðju Suðurlands um tónlistarkennslu í Hveragerði. Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Ninna Sif Svavarsdóttir.Bæjarstjórn samþykkir að heimila allt að 6 nemendum að stunda fullt nám við skólann á hverjum tíma eða 12 í hálfu námi. Með þátttöku Hveragerðisbæjar í Tónsmiðjunni er stigið skref í átt til aukinnar tónlistarlegrar fjölbreytni í bæjarfélaginu en í fjárhagsáætlun árið 2014 er jafnframt gert ráð fyrir að aldurstakmarkanir í tónlistarnám falli niður.

http://hveragerdi.is/files/52b2abb07c62b.pdf

 

Spennandi vetur framundan hjá Tónsmiðju Suðurlands

Nú er að hefjast 10. starfsár Tónsmiðju Suðurlands og gaman að segja frá því að skólinn er kominn í eigið húsnæði.  Það er staðsett á Eyrarvegi 67 2h.th.  Þar fær skólinn gott rými með nokkrum kennslustofum og góðri aðstöðu.

Það er óhætt að fullyrða að skólinn hefur dafnað vel síðastliðin ár.  Nemendur hafa verið sýnilegir í tónlistarlífinu á Suðurlandi og tekið þátt í ótal keppnum á öllum skólastigum.  Undantekningalítið hafa nemendur Tónsmiðju Suðurlands verið á verðlaunapalli.

Það er ekki síður ánægjulegt til þess að vita hve margir ætla sér í frekara tónlistarnám og núna í haust fljúga þrír nemendur til frekara náms erlendis.

Á síðasta skólaári fengum við djasssöngkonuna og FÍH kennarann Guðlaugu Dröfn Ólafsdóttir til að koma og vera með masterklass fyrir söngnemendur okkar.  Þessi dagur þótti takast vel og var mikil lyftistöng fyrir starfsemina.

Sjö nemendur þreyttu próf á vegum Prófanefndar tónlistarskóla í vor.  Fimm luku grunnstigsprófi í rytmískum söng og píanó og tveir luku miðstigsprófi í rytmískum söng.  Einkunnir allra voru framúrskarandi.   Einnig voru þreytt ótalmörg önnur próf við skólann bæði klassísk sem og rytmísk.

Alltaf fjölgar þeim sveitarfélögum sem vilja bjóða þegnum sínum upp á valmöguleika þegar kemur að tónlistarnámi.  Í dag eru eftirfarandi sveitarfélög í samvinnu við Tónsmiðju Suðurlands:  Ásahreppur, Flóahreppur, Hrunamannahreppur, Rangárþing ytra, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Sveitarfélagið Árborg.  Er vert að þakka forystumönnum þessarra sveitarfélaga fyrir þessa framsýni.

Kennarar Tónsmiðju Suðurlands eru allir kennaramenntaðir og hafa ólíkan bakgrunn innan tónlistar.  Þeir eru:  Eyrún Jónasdóttir, Ingibjörg Erlingsdóttir, Karl Hallgrímsson, Kolbrún Hulda Tryggvadóttir, Páll Sveinsson, Stefán Þorleifsson og Sveinn Pálsson.

Kennslustaðir Tónsmiðjunnar eru víða á Suðurlandi:  Á Flúðum, á Laugalandi, í Hveragerði, á Hvolsvelli og  á Selfossi.

Ennþá eru nokkur laus pláss á námskeið á rafgítar, rafbassa og trommur.  Hægt er að skrá sig á slík námskeið á heimasíðu Tónsmiðju Suðurlands:  www.tonsmidjan.net

Tónsmiðja Suðurlands er rytmískur tónlistarskóli með leyfisbréf frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti Íslands.  Tónsmiðja Suðurlands býður upp á nútíma tónlistarnám.

Ingibjörg Erlingsdóttir & Stefán Þorleifsson

Haustönn 2013

Þá styttist í að haustönn Tónsmiðju Suðurlands hefjist.

Allir fyrri nemendur eru hvattir til að staðfesta umsókn sína með tölvupósti á netfangið tonsmidjan@gmail.com.  Nýjar umsækjendur eru boðnir velkomnir og vonandi finnum við rými fyrir alla. Skráning eru í fullum gangi og fyrstir koma, fyrstir fá.

Hafir þú einhverjar séróskir þá má vel vera að við getum uppfyllt þær.  Hafðu samband og heyrðu í okkur.

Ingibjörg & Stefán